TT vitnar bara í Steingrím fjármálaráðherra sem hefur básúnað því út um öll Norðurlönd að Íslendingar ætli að standa við sínar "alþjóðlegu skuldbindingar." Allir skilja þetta sem að Ísland gangi að kröfu Breta og Hollendinga. Með því að tala um, að forseti Íslands hafi verið "illa upplýstur" og þar með tekið ákvörðun á röngum forsendum, er ríkisstjórnin að blása á forsetann og gefa út á við mynd af manni, sem veit ekki hvað hann gerir.
Blaðamenn hér skilja ekki, að það sé neitt athugavert við að ráðamenn Svíþjóðar eins og Fredrik Reinfeldt og Anders Borg, segi sama hlut og ráðamenn Íslands. Að Svíþjóð neiti að lána peninga til Íslands, þar til Ísland hefur gengið að kröfu Breta og Hollendinga, er þess vegna algjörlega eðlilegt og raunar algjört aukaatriði í málinu. Hvers vegna að vera að "leysa" eitthvað sem menn eru sammála um? Mögulega hefur Steingrímur farið til Norðurlanda til að fyrirfram lofa samþykki Icesave í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Og jafnframt að fá upplýsingar um ESB aðferðina að endurtaka atkvæðagreiðslur þar til "rétt" niðurstaða fæst.
Ég tel að ríkisstjórnin, aðallega Samfylkingin sem virðist vera fjarstýrt héðan frá kratastöðvum Svía, sé að vinna tíma núna með algjörum sýndarleik um "samvinnu" með stjórnarandstöðunni.
Aðalmarkmið ríkisstjórnarinnar er að láta raddir andstöðunnar þagna útávið á meðan stjórnin byggir upp kosningaáróðursvél sína fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna. Strategía þessarar ríkisstjórnar hefur aldrei verið neitt annað en koma landinu i Evrópusambandið og öll umgjörð Icesavemálsins markast af því. Samkvæmt erlendum aðilum eins og ríkisstjórn Svía, er Ísland þegar búið að semja um Icesave og það eru skuldbindingarnar sem verið er að vísa til, þegar sagt er að Ísland verði að standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar.
Eini möguleikinn fyrir lausn Icesave deilunnar er, að ríkisstjórnin fari burt og ný komi í staðinn. Núverandi ríkisstjórn gerir allt sem í hennar valdi stendur til að koma Íslandi í opinbert gjaldþrot.
Inga kommentarer:
Skicka en kommentar