"Ábyrgðin á því stórslysi, sem skella mun yfir þjóðina og landið, er í sanni það alvarleg, að mér stafar ógn við töku hennar. Það hvílir á herðum ríkisstjórnarinnar að taka ákvörðunina, en afstaða mín er skýr." (lausleg þýðing)
Þannig féllu orð Hákonar sjöunda Noregskonungs á ríkisráðsfundi 10 apríl 1940, þegar sú örlagaríka ákvörðun var tekin að neita kröfu Þjóðverja um að gera Vidkun Quisling að forsætisráðherra Noregs. Noregskonungur og ríkisstjórn Noregs stóðu þétt saman með þjóð sinni til verndar hagsmunum Noregs.
Þótt Íslandi standi ekki frammi fyrir tafarlausri né raunverulegri ógn af innrás erlends hervalds, verði Icesave kröfunni hafnað, þá eru öfugmerki mála, að forsetinn einn er með þjóðinni en ríkisstjórnin á móti. Sífelldar hótanir um "fjárhagslega einangrun" og að "Ísland komist ekki inn í Evrópusambandið" sé ekki skilyrðislaust gengið að samningsákvæðum Breta og Hollendinga, gagnar lítið málstað Íslands.
Það hefur verið allt annað en fagurt að sjá, heyra og lesa í erlendum fjölmiðlum, hvernig ráðherrar ríkisstjórnarinnar, fremst utanríkisráðherrann, hafa notað tækifærin til að tala niður land og forseta en þegja um málefnaleg rök þjóðarinnar. Ekki furða, að Bretar hafa létt af hryðjuverkaumsátrinu með jafn góða bandamenn sér við hlið. Þeir þurfa einfaldlega ekki lengur á lögunum að halda til að fá sínu fram.
Liðhollusta Samfylkingarinnar er öllu stærri við Evrópusambandið en Íslendinga og ríkir ofurtrú á almætti sambandsins. Engu er líkara, en að þar sé gengið inn í himnaríki sjálft og Jóhanna fái stjórastöðu englakórs, Össur tenórhlutverk og Steingrímur hörpu. Í ESB svífa allir um á mjúkum skýjum.
Rétt er, að embætti ESB eru vel launuð, t.d. er ný staða forseta ráðherraráðsins hærri launuð en staða sjálfs Bandaríkjaforseta en með þeim mun samt, að Bandaríkjaforseti ber ábyrgð á gjörðum sínum en nýji starfsmaður ESB enga.
Núna hefur ESB þrjá forseta og að auki nýtt embætti utanríkisráðherra. Á meðan stöðum fjölgar innan yfirbyggingarinnar, eru um 25 miljónir manna á skrá atvinnulausra innan ESB og fer hratt fjölgandi. Atvinnuleysið er komið yfir 10% strikið innan evrusvæðisins og um 5 miljónir ungs fólks á aldrinum 15 - 24 ára fær enga atvinnu. Yfir 61% aðspurðra íbúa innan ESB telja að atvinnuleysið eigi eftir að versna 2010 og trúa ekki útreikningum stjórnvalda, sem ekki hafa alltaf staðist.
Um 400 miljónir manna eru í ESB, þar af er helmingurinn eða 200 miljónir manna ekki starfandi og háðir hinum helmingnum um framfærslu sína. Þetta hindrar þó ekki um 45 þúsund starfsmenn ESB að hóta með verkfalli, verði ekki gengið að kauphækkunarkröfum þeirra.
Efnahagsástandið er eldfimt, á eftir Eystrasaltslöndunum er AGS nú með skyndihjálp í Grikklandi. Portúgal og Spánn eru næstir í röðinni. Ef Grikkland fellur og dregur með sér evruna gætu lönd utan evrusvæðisins eins og Bretland, Danmörk og Svíþjóð þurft að koma til aðstoðar með stórar fjárhæðir til styrktar evrunni. Vegna nýrrar stjórnskipunar Lissabonsáttmálans, er búið að afnema neitunarvald einstakra aðildarríkja en svokallað tvöfalt meirihlutaákvæði komið í staðinn (meirihluti íbúa og ríkja). Sú staða á eflaust eftir að koma upp, að Brussel keyrir yfir einstaka meðlimi, þótt vera kynni, að allir íbúar viðkomandi ríkis vilji annað.
Við skoðun á þáttöku almennings í kosningum til Evrópuþingsins, kemur í ljós, að hún fer þverrandi. 62% kusu árið 1979 en 43% árið 2009. 20% fall á þremur áratugum þýðir að líklega þyrfti minna en 50 ár til viðbótar til að lýðræðið gufaði endanlega upp.
Stóru löndin eru óhress með, að þau minni geti keppt með lægri sköttum, sem lokka til sín stóru alþjóðafyrirtækin. Írar eiga eftir að fá að kenna á því, eftir að innlimun þeirra er afstaðin. Bæði Frakkar og Bretar vilja fá till sín Dell og Google og því er verið að tala um "samræmingu" skatta og setja lágmarkshæð á gólfi, sem enginn má fara undir, en ekkert er minnst á hámarkshæð á þaki. Rætt hefur verið um innheimtu nýs ESB-skatts af aðildarríkjunum en ekki talið tímabært í augnablikinu. Í ár verður Búlgaría sjálfsagt eina fyrirmyndarríki ESB með hallalaus fjárlög.
Íslendingar hafa upplifað, hvernig leiðtogar ESB hafa vikist undan ábyrgð á eigin tilskipunum og samningum innan EES. Með skilgreiningu á Icesave sem "milliríkjadeilu" hafa þeir svikið fyrirheit sín og þvingað Ísland í fang Breta og Hollendinga. Mjög athyglisverðar greinar Lárusar Blöndals og Stefán Stefánssonar í Mbl. draga upp lagalegan grundvöll málsins. Eva Joley og Alain Lipietz benda réttilega á, að leiðtogar ESB verði að axla ábyrgð sína og koma að lausn Icesave deilunnar.
Lærum af Norðmönnum og höfnum kvislingum. Ég dreg til baka fullyrðingu mína, að forsetaembættið sé bleikur nár. Forsetinn hefur snúið aftur til þjóðarinnar og embættið andar enn. Ég tel ekki, að forseti hafi málskotsrétt en hins vegar neyðarrétt. Og neyð Íslands er fólgin í þvingun á afsali eða áframhaldandi fullveldi lýðveldisins. Ég stend með þjóð vorri og forseta og kýs fullveldið.
Inga kommentarer:
Skicka en kommentar