lördag 2 juni 2012

Leppalúði á Ísmaníu - til hamingju með sjómannadaginn!

Leppalúði á Ísmaníu var duglegur að veiða þorsk.

Þegar höfundur Línu Langsokks, sænski barnabókahöfundurinn Astrid Lindgren, fékk eitt árið 102 % skatt lagði hún höfuðið í bleyti og komst að því, að þeim mun fleiri sem læsu bækur hennar um víða veröld, þeim mun fátækari yrði hún. Henni bæri þess vegna að hætta að skrifa til að komast af. Af skiljanlegum ástæðum fannst henni enginn jöfnuður vera í þessu og þá skrifaði hún fræga grein Pomperipossa i Monismanien, sem varð til þess, að skattayfirvöld Svíþjóðar urðu að breyta skattakerfinu. Mér finnst árásir yfirvalda á sjávarútveginn á Íslandi snúast um sama hlut. Þeim mun fleiri þorska, sem sjómenn okkar veiða, þeim mun fátækari verða þeir. Þess vegna finnst mér hugmyndin um Pomperipossa eiga vel við á Sjómannadaginn 3. júní 2012, þegar útgerðarmenn og sjómenn létta ekki úr höfn og stjórnarandstaðan ætti að senda SOS frá Alþingi til allra landsmanna vegna áforma ríkisstjórnarinnar að taka stjórn sjávarútvegsins og hagnað einhliða eignatöku með hörmulegum afleiðingum fyrir landsmenn alla. Í stað Pomperipossa nota ég Leppalúða, sem er Íslendingum kunnugur. Bæði voru af nornakyni og fá sér gjarnan börn í kvöldmatinn.                    (Texti lagfærður 3.júní).
_____________________________________________

Sjómaðurinn Leppalúði (eitthvað varð að kalla hann) bjó á eyjunni Ísmaníu langt norður í Atlantshafi. Þar voru gjöful fiskimið, kaldir vindar og háar öldur. Leppalúði elskaði landið sitt og aðra Ísmana. Hann smíðaði sér bát, gerði veiðarfæri og réri til sjós og gerði samning við þorskinn, að aldrei skyldi hann ofveiða stofninn bara ef þorskurinn léti veiða sig. Þá fengu hann og aðrir Ísmanir fisk í matinn, sem gerði lífið léttara á Ísmaníu. Ekkert mál, sagði þorskurinn góði.

Árin liðu og Leppalúði réð fólk í vinnu, smíðaði fleiri báta og Ísmanir voru ánægðir með sinn hlut. Þeir fengu vinnu og nógan fisk í matinn og Leppalúði borgaði peninga til samfélagsins, sem notaðir voru m.a. til að byggja skóla og sjúkrahús. 

Ekki leið á löngu, þar til útgerðin blómstraði það mikið, að byrjað var að sigla með fisk til annarra landa og það sýndi sig, að íbúar annarra landa voru alveg jafn ánægðir og Ísmanir með sinn hlut.

Svo gerðist eitthvað, sem Leppalúði hafði aldrei heyrt áður: Bankahrunið. Í kjölfar þess og með hávaðalátum fékk Ísmanía nýja ríkisstjórn, sem allt vissi miklu betur en aðrir Ísmanir gætu nokkru sinni vitað. Þess vegna var það svo mikilvægt, fékk Leppalúði að heyra, að ríkisstjórnin semdi við þorskinn, því hún væri svo miklu betri samningamaður en Leppalúði og best væri að ríkisstjórnin tæki yfir kvótakefið til að gera það enn betra, þrátt fyrir að það hafði fram að þessu reynst Leppalúða og öðrum Ísmönum ágætlega. Hinir slípuðu embættismenn sögðu við Leppalúða, að veiðigjaldið þyrfti að hækka en það væri nú bara smávægilegt, því gjaldið færi aldrei yfir 70 % af tekjunum. Og eitthvað þyrfti að breyta kvótareglunum svo ríkið fengi sinn hlut en á slíkt smáræði tekur varla að minnast, því eignamissirinn færi aldrei yfir 100 % á löngum fimm árum. Eftir það væri bara að setja sig í röðina, sem væri bæði jöfn, bein og fín og bíða þar til einhverjum embættismanninum þóknaðist að deila út leyfi til að veiða þorsk. Enginn er betur til þess fallinn en ríkisstjórnin, að segja Leppalúða og öðrum Ísmönum, hversu marga þorska þeir mega veiða. Og þar sem ríkisstjórnin starfar í anda jafnaðar er þetta gert til að styrkja  jöfnuðinn í ríkinu og samtímis er þetta allt saman í samræmi við sjónarmið hins stóra ríkis, sem Ísmanía ætlar að sameinast. Til þess að jöfnuðurinn verði sem mestur, þá var ákveðið að nýju ákvæðin giltu bara fyrir þá, sem ættu og rækju fyrirtæki í sjávarútvegi.

Leppalúði, sem alltaf hefur verið réttsýnn maður og skynsamur vildi að sjálfsögðu að jöfnuður ríkti meðal Ísmana. Þess vegna fannst honum þetta í byrjun vera hið besta mál. Þótt Leppalúði hafði aldrei áttað sig á, hvað væri svona merkilegt að vera fyrirtækjarekandi og vissi ekki í einfeldni sinni að svona mikill jöfnuður og mörg prósent væru til, þá ákvað hann að láta ekki sitt eftir liggja til að koma þessum góðu hugmyndum í framkvæmd. 


Hann varð þess vegna afskaplega dapur, þegar hann hafði lagt saman allar tölurnar og reiknað með útsvari, atvinnurekendagjöldum, tekjuskatti, olíukostnaði og öðrum gjöldum og sá, að útkoman varð alltaf stærri en 100 %. Það skipti engu máli hversu oft eða hvernig hann reiknaði. Hann sá, að hann yrði fátækari með hverjum nýjum þorski, sem hann veiddi og að allt sem hann hafði sparað og lagt niður í betri skip og veiðarfæri mundi glatast. Hann sá að um var að ræða nýjan skatt og framleiðslugjald. Ekki lagaðist ástandið, þegar Leppalúði frétti frá vini sínum á Spáni, að hlutirnir voru öðru vísi í útlandinu þar sem ríkisstjórnir borga mönnum fyrir að veiða í stað þess að leggja á þá drápsklyfjar. Þar fyrir utan höfðu fjármálaspekingar sagt að best væri að skulda, því þá væri hægt að draga mínus frá plús og afraksturinn yrði meiri.

Leppalúða varð hugsað till foreldra sinna, sem nú reyndust honum svo dýrir. Þeir höfðu kennt honum að slæmt væri að skulda. Leppalúði andvarpaði og sagði við sjálfan sig: Sjáið mig í dag: skuldlaus maður með allar þessar tekjur, sem gera mig bara fátækan. Hvað hefur eiginlega hlaupið í þessa jafnaðarmenn? Af hverju er ekki lengur leyfilegt að þéna peninga á heiðarlegan hátt? Hvaða undarlega og súra öfundsýki er þetta, sem hefur lagst yfir Ísmaníu?

Leppalúði las ljóð, sem eitt af höfuðskáldum Ísmaníu hafði ort:

Samfylkingin þolir ei sköpun mæta,
skriffinna þrasi lendir þú í,
hjálpaðu Össur í hernaði þræta,
hentu þér annars í terapí.

Leppalúða leið eins og hann þyrfti að komast í terapí á stundinni. Það var svo erfitt eftir öll þessi ár að byrja að efast um Ísmaníu, sem alltaf hafði verið besta landið í heiminum. Þegar Leppalúði var að niðurlotum kominn við að reyna finna lausn á þessu hræðilega vandamáli, sem hann var staddur í, kom ljósið í myrkrinu: Félagsbætur! Hvílík snilld. Takk Ísmanía fyrir þessa frábæru lausn. Ísmanía þú ert svo sannarlega besta landið í heiminum. Eða? Eða kannski ekki ....?

Leppalúði ákvað að láta svarið eiga sig. Hann lifði hamingjusamur á félagsbótum það sem eftir var ævinnar og veiddi aldrei þorsk eftir það.


Stokkólmi 2. júní 2012

Gústaf Adolf Skúlason

Inga kommentarer:

Skicka en kommentar